Engar brækur!
Satt, við hjólum ekki í nærbuxum heldur klæðir maður sig bara beint í níðþröngu spandex púðabuxurnar og togar vel upp svo púðinn smellist þéttingsfast við ... einkasvæðin. Engar áhyggjur þið eruð ekki komin inn á Rauðu Seríuna, þetta er bara svona í alvöru í raunveruleikanum :D
En svona án alls gríns þá eru allar púðabuxur, ekki bleyju-buxur eins og sumir vilja kalla þær(hræðilegt orð sko!) hannaðar til þess að liggja beint á húðinni. Púðinn er hannaður útfrá þörfum kvenna og karla, til þess að draga úr núningi, veita vörn fyrir kynfæri og setbein frá þunga okkar reiðhjólafólksins. Púðarnir eru með bakteríu-drepandi eiginleikum og draga svita frá húðinni til að halda öllu eins hreinu og hægt er. Ef fólk fer í brækur innanundir eru miklar líkur á að brækurnar valdi nuddsárum og það viljum við alls ekki. En þó maður noti púðabuxurnar alveg rétt þá geta samt komið nuddsár og þá þarf að eiga bossakrem/rassakrem/púðakrem, Pringles lögmálið- "Einu sinni smakkað og þú getur ekki hætt". Eftir að við smurðum fyrsta kreminu í massavís beint á svæðið og bara út um allt svæði (já þetta var ekki farið að líta vel út þarna í hjólaferðinni á Spáni um árið) var ekki aftur snúið. Nú notum við krem alla daga ... alla hjóladaga, þetta er ekki hentugt sem annarskonar smurefni. Það er ástæða fyrir því að við notum þessu sérstöku bossakrem en ekki annað, t.d. vaselín á púðann, því að veselínið skemmir púðann til lengri tíma á meðan bossakremin eru hönnuð bæði fyrir svæðið og efnið í púðunum.
Og púðabuxur eiga að vera þröngar, við viljum ekki að púðinn hangi eins og kúkur í brók niður frá rassinum heldur eru þær hannaðar þröngar til að halda púðanum á sínum stað svo hann sé ekki á hreyfingu. Við höfum á okkar 7 árum notað um 14 mismunandi púðbuxur frá um 10 framleiðendum. Það er engin tilviljun hvaða merki við erum að selja, einfaldlega það sem hefur reynst okkur best og endst lengst.
Svo að hnökkum, þeir eru líka til í tugatali sem liggja eftir okkur notaðir en ekki fílaðir, sitja uppá hillu og láta sér leiðast. Það er jú þannig að það er engin eins, það þarf að prufa sig áfram með hnakka sem henta manni, fara í mælingar og jafnvel Bikefit. Svoleiðis er það líka með púðana, það er ekki sami púðinn sem hentar öllum og er það ein af ástæðum þess að við bjôðum uppá fría endursendingu og 30 daga skilarétt.
Höldum áfram að njóta meira og hjóla lengra, það er svo sannarlega auðveldara í góðum púðabuxum.